•  Nýr stofn hermannaflugna kemur til landsins
  • Víur stefna að nýtingu vannýttra hráefna til framleiðslu fiskifóðurs
  • Víur fjármagnaðar til næstu tveggja ára

Lítið hefur spurst af Víum, ræktunarfélagi fóðurskordýra, síðustu mánuðina. Helgast það af því óhappi að flugurnar sem félagið byggði starfsemi sína á drápust allar í vor, og gerðist það akkúrat þegar stofninn var sá eini á landinu. Því þurfti að flytja nýjan stofn inn til landsins með tilheyrandi kröfum um sóttkví og innflutningsleyfi. Hefur undirbúningur innflutningsins tekið töluverðan tíma.

„Óhappið undirstrikar mikilvægi þess að hafa að minnsta kosti tvo aðskilda stofna á lífi á hverjum tíma, og verður það fyrirkomulag að sjálfsögðu viðhaft þegar sóttkvínni á hinum nýja stofni verður aflétt,“ segir Gylfi Ólafsson annar stofnenda.

Katrín Sigurbjörg Sveinsdóttir skordýrabóndi tekur á móti nýjum stofni og kemur fyrir í ræktunaraðstöðu Vía í Bolungarvík.

Katrín Sigurbjörg Sveinsdóttir skordýrabóndi tekur á móti nýjum stofni og kemur fyrir í ræktunaraðstöðu Vía í Bolungarvík.

Víur hyggjast rækta svartar hermannaflugur, tegund sem er algeng víða í hinum heitari hlutum heimsins. Lirfur flugunnar eru hraðvaxta og ekki matvandar og gómsætar þeim dýrum sem fá að éta þær. Flugurnar sjálfar eru friðsælar skepnur, hvorki með brodd né munn, og drepast fari hitastig niður fyrir 10-15°C. Ræktun þeirra á Íslandi er því algerlega örugg og engar líkur á að flugan geri sig heimakomna í íslenskri náttúru eða geri usla í mönnum eða dýrum. Flugurnar sem fluttar eru inn koma úr stofni sem hefur verið í áraraðir vottaður sem laus við óværu og sjúkdóma.

Víur eru þátttakendur í nokkrum rannsóknarverkefnum og hefur tryggt fjármögnun til næstu tveggja ára. Fyrirtækið hefur komið sér upp fullkominni ræktunaraðstöðu í Bolungarvík og hyggst prófa vaxtargetu og næringargildi lirfanna við mismunandi aðstæður og fæðu. Markmiðið er að framleiða lirfumjöl sem hentar sem uppistaða í fiskifóður, en á sama tíma minnka sóun á mikilvægum næringarefnum sem í dag fara til spillis.

Lagaumhverfi Evrópusambandsins um ræktun og nýtingu skordýra, sem einnig gildir hér á landi, er í endurskoðun þessa mánuðina. Í fyrirliggjandi drögum er nýtingu skordýra nokkrar takmarkanir settar, en þó með mikilvægum undantekningum um ræktun svörtu hermannaflugunnar. Hvernig sem fer er í öllu falli mikilvægt að lagaramminn verði skýrður.